Kveðist á við kölska

Staðurinn er Svalþúfa á Snæfellsnesi, stundin er í byrjun desember og þarna var skollinn á fyrsti alvöru snjóbylurinn á vesturlandi þennan veturinn. Við þessar aðstæður sem þarna, er auðvelt að setja sig inn í frásögnina um Kolbein og kölska þegar þeir sátu á berginu á Svalþúfu og kváðust á þar til Kolbeinn hafði loks betur. Vindurinn rífur í úlpuna og maður hrósar happi yfir að hafa sett á sig húfuna og stungið vettlingunum í vasann áður en við fórum úr bílnum og gengum fram á Svalþúfu. Myndavélin var með í för, og sem betur fer er Canon vélin mín nokkuð vatnsheld, allavega í svona veðri, en samt reynir maður alltaf að skýla henni eins og kostur er.  Það voru líka bara teknar myndir í eina átt, undan veðrinu, annað var ekki í boði.

Ég var þarna á ferð með félögum mínum frá ljosmyndakeppni.is sem fara í nokkrar ljósmyndaferðir á ári og í þessari ferð lá leiðin um sunnanvert Snæfellsnes. Ætlunin var að fara hringinn og keyra til baka norðan megin, en vegna veðurs og ófærðar varð ekkert úr þeirri áætlun. Við lentum í mesta basli á leiðinni frá Arnarstapa að Búðum, og þurfti mikið að ýta og moka á þeirri leið. Þessar ferðir eru alltaf jafn skemmtilegar, ekki síst þegar við lendum í smá ævintýrum og veseni í leiðinni.

Sápukúla

Soap_bubble_MG_0945

Ég dvaldi ásamt fjölskyldunni í yndislegum sumarbústað í Minni-Borgum um síðustu helgi þar sem við nutum lífsins í slökun og rólegheitum. Þessar fjölskylduhelgar í sumarbústað einhversstaðar úti á landi eru mikið tilhlökkunarefni þar sem börnin og barnabörnin eyða helginni með okkur.

Sumarbustadaferd_20Í fyrra voru bakaðar jólapiparkökurnar við mikinn fögnuð barnabarna, þar sem þau fengu að spreyta sig á bakstrinum með því að búa til kalla og kerlingar, hjörtu, endur og hvaðeina sem hægt er að búa til úr piparkökudeigi. Ása sá um að fletja út deigið svo þau gætu gert sín mynstur og komið þeim á bökunarplötuna með lítilsháttar hjálp og koma því í ofninn.

Núna þótti okkur of snemmt að baka piparkökur, en þess í stað var saumað í, búin til jólakort og blásnar sápukúlur.

_MG_0549Auður amma sat við útsaum, eins og ömmur eiga að gera 🙂 og þau litlu sáu að hún var að gera eitthvað skemmtilegt og komu niður af svefnloftinu til að kíkja á það. Þau settust svo niður hjá ömmu, sem lánaði þeim nál með tvinna og hjálpaði þeim að byrja á útsauminu. Það er ekki mörgum sögum af árangrinum, en einbeitingin og þögnin var alger í 15-20 mínútur meðan þau stungu nálinni niður úr javanum og upp aftur, þangað til garnið kláraðist. Amma kom þá til bjargar og þræddi nálarnar aftur.

Þegar saumaskapnum var lokið þótti fólki kominn tími til að hreyfa sig aðeins og fóru því allir í útifötin, leikdótið dregið fram, og tengdasonurinn sótti fótbolta út  í bíl. Við strákarnir lékum okkur í fótbolta um stund á meðan börnin breyttu göngustígnum við bústaðinn í kastala og hús.

_MG_0653Svo voru sápukúlustaukarnir dregnir fram í dagsljósið og þau litlu fengu að spreyta sig á því um stund, með misjöfnum árangri. Sumir 3 ára blésu of fast til þess að þetta gengi upp, en þegar maður er 4 ára, þá gengur það betur. Guðni stóri frændi er hér að sýna hvernig á að gera þetta með góðum árangri. Sápukúlurnar svifu um pallinn í logninu, sumar tylltu sér niður og sprungu, aðrar lifðu lengur svo hægt var að spegla sér í þeim þar sem þær lágu á blautum pallinum. Sumum fannst mest spennandi að stíga ofaná sápukúlurnar á pallinum og var mikið hlegið.

Að síðustu urðu þau litlu þreytt á þessu og snéru sér að öðrum leikjum, en þá héldu Guðni og Fjalar áfram og blésu sápukúlur sem mest þeir máttu, og ég tók myndir af þeim, sem hægt er að skoða hér: http://www.pbase.com/pall

Út úr þessu komu ótrúlegustu mynstur og spegilmyndir, stórar sápukúlur sem sumar öðluðust sjálfstætt líf og svifu út fyrir pallinn fyrir hægum andvaranum og sáust sumar þeirra a síðustu hverfa yfir golfvellinum í nágrenninu.

Svanir

Álftir_IMG_8308_700

Fyrir skömmu var ég á ferðinni vestur á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi í þeim tilgangi að taka myndir af haustinu. Haustið var vissulega komið í fjöllin, þar sem þau voru grá og hvít niður í miðjar hlíðar og ferskur andblær í loftinu eins og svo oft á haustin þegar kólnar.

Álftir á mýrum_IMG_8285Það sem mér fannst þó eftirtektarverðast var allur sá fjöldi álfta sem ég sá í þessari ferð, og þá voru þær gjarnan í hópum eins og þessum hér að ofan, og gæddu sér á grasinu í túnum bænda í samkeppni við sauðkindina.

Oftast virtust þetta vera fjölskyldur, þar sem foreldrarnir voru í óðaönn að þjálfa afkvæmin í flugi, að undirbúa þau undir flugið yfir Atlantshafið.

Ég var heppinn að komast í þessa ferð í svona góðu veðri, því nokkrum dögum seinna var komin rigning og rok.

Haust

Kría

Þessi mynd minnir mig svolítið á haustið, farfuglarnir eru farnir eða eru að búa sig undir langferðina og haustlægðirnar færast í aukana. Skógarþrestir og starar stunda flugæfingar yfir húsinu okkar og einstaka einmana mávur flýgur framhjá, eins og hann sé ekki alveg viss um hvort hann ætti að vera hérna yfirleitt. Þessi eina kría segir mér líka að það er undir hverjum og einum komið hvort hann kemst á leiðarenda, í hópnum hugsar hver um sig en allir stefna samt að sama marki, að komast til vetrarstöðvanna í Evrópu eða Afríku og krían þarf reyndar að leggja á sig ennþá lengra flug, til Suðurskautsins.

Þetta er svolítið eins og hjá mannfólkinu, hver einstaklingur þarf að hugsa um sinn hag, því það er ekki víst að hinir geri það fyrir mann.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Brúðkaup

Asa_Fjalar_IMG_5025

Brúðkaup Ásu og Fjalars er einn af stærstu viðburðum í lífi mínu og fjölskyldunnar, einstaklega fallegt og skemmtilegt brúðkaup þessa glæsilega pars. Athöfnin fór fram í fallegum og látlausum garði fyrir framan gamla bæinn á Kirkjubæjarklaustri, en þaðan er Fjalar ættaður og uppalinn. Sýslumaðurinn í Vík, Anna Birna Þráinsdóttir gaf þau Ásu og Fjalar saman, og var eftÁsa og Fjalar_220809_IMG_5056ir því tekið hversu skörulega það var gert, einhver sagði að athöfnin hafi tekið 14 mínútur. Innan þess tíma rúmaðist fallegur söngur Katrínar Valdísar, fyrir og eftir athöfnina.

Ég gat ekki haldið aftur af tárunum á meðan á athöfninni stóð, slík var geðshræringin og gleðin sem ég upplifði, og mamma sagði við mig seinna að ef maður getur grátið á þessum aldri, þá sé maður orðin þroskaður og fullorðinn. Eftir athöfnina kvittaði ég svo í bók Sýslumannsins sem svaramaður og allt var þar fært til bókar eins og vera ber.

Að því loknu tók við veisla með frábærum mat á Hótelinu á Klaustri, þar sem lögð var áhersla á mat úr héraði ásamt skemmtilegum ræðum og óvæntum skemmtiatriðum og svo var sungið fram á rauða nótt…

Orange

Sunset

Orange er einn af heitu litunum og himininn skartar þessum lit helst á heitum sumarkvöldum eftir sólríkan dag með hlýjum sunnanvindum. Helsta ástæðan fyrir svona litadýrð er ekki bara sólin, heldur er þetta oft mengun sem kemur með þessum sömu hlýju vindum sunnan úr Evrópu og breytir himninum í þetta litahaf. Við finnum þetta þegar við erum útivið á svona dögum, sérstaklega úti í náttúrunni þar sem venjulega er ekki nein mengun, en ég er alveg tilbúinn til að fórna nokkrum dögum í evrópsku lofti hér á landi gegn því að hitastigið fari nú upp fyrir 20°C.