Stepping Stones for the Trolls

Stepping Stones for the Trolls, originally uploaded by Jokull.

Á Kjalarnesinu er smá útskot við Vesturlandsveginn þar sem hægt er að leggja bílnum og labba niður í fjöruna. Út frá fjörunni eru nokkrir klettar út í sjóinn sem standa mismunandi mikið upp úr sjónum á flóði og fjöru. Þetta svæði finnst mér alltaf skemmtilegt á að horfa og ljósmynda.
Með smá ímyndunarafli má vel hugsa sér að þessir steinar séu stiklur fyrir tröll úr Esjunni sem þurfa að stytta sér leið út á Gróttu.

Bestu vinir

Á fallegum síðsumardegi ákváðum við Auður að fara með barnabörnin okkar í ævintýraferð og varð Öskjuhlíðin fyrir valinu. Við fórum að Keiluhöllinni, þar sem við lögðum bílnum, og fórum inn í striðsminjarnar sem Bretar skildu eftir sig eftir stríð. Það þarf að príla upp brattar steintröppur og yfir háa veggi til þess að komast um svæðið, og alltaf biðu ný og ný ævintýri eftir okkur á nýjum stað.

Við settum ýmis leikrit á svið og tókum þátt í að skapa persónurnar sem þau þekkja svo vel úr sögum, svo sem Kardimommubæinn og söguna um Rauðhettu og úlfinn. Úlfurinn þótti heldur mikið raunverulegur og var þess vegna ákveðið að hann dræpist frekar snemma í sögunni þar sem hann vakti óhug  hjá öðrum leikurum, þ.e. Rauðhettu og veiðimanninum, en amman (leikin af Auði) var nú ekkert hrædd, þrátt fyrir að vera étin af grimma úlfinum 🙂

Við ákváðum í framhaldi af þessu að leika frekar falleg ævintýri sem innihéldu prinsessur og prinsa til þess að losna við hrollinn sem úlfurinn olli. Og allir lifðu hamingjusamir til enda ferðarinnar.

Þingvellir í Fókus

Í kvöld, föstudaginn 11. júní opnaði í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík ljósmyndasýningin Þingvellir í Fókus. Sýnendur, sem eru 28 talsins með 51 mynd, eru allir félagar í Fókus, félagi áhugaljósmyndara. Þetta er nítjánda samsýning félagsins, en að jafnaði eru haldnar tvær sýningar á ári. Myndirnar eru flestar í stærðinni 40×60 sm og allar prentaðar á striga sem er festur á blindramma. Þetta gerir myndirnar mjög eigulegar, enda eru þær til sölu fyrir sanngjarnt verð, þær stærri kr. 30.000 og þær minni kr. 25.000.-

Ég á þessar tvær myndir hér að neðan á sýningunni:

Sýningin er opin dagana 11.-27. júní á opnunartíma Ráðhússins, virka daga kl. 08-19 og um helgar kl. 10-18.

Stórgos í Eyjafjallajökli


Eyjafjallajökull blasir við frá Hvolsvelli.

Hafið er gos í Eyjafjallajökli sem er 10-20 sinnum stærra en gosið á Fimmvörðuhálsi, að sögn jarðfræðinga. Flóð er nú komið í Markarfljót sem stefnir í það að rjúfa varnargarða við Stóra-Dímon, en þar skammt frá er sumarhúsabyggð sem gæti verið í hættu ef hlaupið nær að brjótast í gegn um garðana. Gosið er nærri hábungu jökulsins að þessu sinni, og er gossprungan talin vera 1-2 km að lengd. Hún nær yfir vatnaskil milli norðurs og suðurs, og er vatn einnig byrjað að flæða niður í Svaðbælisá, austan við Þorvaldseyri. Vegagerðin hefur rofið þrjú skörð í þjóðveginn austan og vestan við Markarfljótsbrú til þess að létta á þrýstingnum á veginn, og þar spýtist nú flóðið í gegn af miklum krafti.

Íbúar og sumarhúsaeigendur á svæðinu rýmdu hús sín snemma í morgun og búið er að ganga úr skugga um að enginn sé á svæðinu sem ekki hefur til þess heimild. Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur, en ljóst er að tjón á vegum og mannvirkjum þeim tengdum er orðið nokkuð. Gamla brúin yfir Markarfljót er komin í kaf.

Eldgos

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi undir miðnætti sunnudaginn 21. mars, öllum að óvörum og án nokkurra sérstakra fyrirboða. Landsmenn hafa tekið þessu eldgosi fagnandi og fengið eitthvað annað að hugsa um en ……. og önnur efnahagsleg leiðindi. Fólk hefur streymt þúsundum saman á gosstöðvarnar upp á Fimmvörðuháls, á jeppum, snjósleðum eða fótgangandi, og þeir sem tíma að borga fyrir flugferð eða þyrluferð gera það. Við höfum aftur á móti látið okkur nægja að keyra inn í Fljótshlíðarafrétt þar sem útsýni er suður yfir Þórsmörk, austan Valahnjúks og eldstöðin blasir þar við ef skyggni er gott.

Í þessari ferð fengum við lánaðan jeppa sem kom okkur klakklaust á leiðarenda og til baka, þrátt fyrir lélega dempara að aftan, en vegurinn er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Umferðin í Fljótshlíðinni var eins og á góðum sumardegi um verslunarmannahelgi, flestir vel búnir en innanum voru nokkrir slyddujeppar.

Útsýnið frá þessum stað er stórfenglegt þó að um 5 km séu til gosstöðvanna. Og ef við snérum okkur í hina áttina blöstu við norðurljós yfir Einhyrningi og Tindfjöllum í norður.  Stjörnubjartur himinn, norðurljós og eldgos, er nokkuð hægt að hafa það betra? Þessar myndir voru teknar um kl. 23:00 laugardaginn 3. apríl.

Ég læt fylgja með eina mynd af Tindfjallasvæðinu sem er norður af Fljótshlíðinni, en þar voru mikil eldsumbrot á síðustu Ísöld. Sagt er að þar hafi verið hæsta fjall landsins á þeim tíma sem síðan ruddi úr sér svo mikilli kviku að toppurinn féll saman og niður í sigketil sem sjá má í miðjum austanverðum Tindfjallajökli. Á myndinni má sjá Tindfjöll og Þríhyrning og Fimmvörðuháls lengst til hægri. Í forgrunni er svo Ölfusá, en myndin er tekin af Þrengslaveginum.

Ein í viðbót frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.

Myndin er tekin með 100-400mm linsu og 2x extender = 800 mm.

Gullfoss

Gullfoss er alltaf jafn fallegur, hvort sem á sumar- eða vetrardegi og hvort sem árið er 1910 eða 2010. Auðvelt er að setja sig í spor ferðamanns veturinn 1910, sem lagði leið sína inn í Haukadal og upp með Hvítá, þar til komið var að Gullfossi. Hann hvíldi hestana og batt þá við bautasteininn á vestari bakka árinnar og gekk niður slakkann með stóra myndavél á öxlinni. Hann ætlaði að taka mynd af fossinum í klakaböndum til þess að sýna vinum sínum sem bjuggu á mölinni (Reykjavík), því þeir höfðu fæstir séð þennan foss að vetri. Það gekk á með éljum þennan dag og kalt var í veðri. Ferðamaðurinn stillti myndavélinni upp og beindi henni niður með ánni til suðurs, og þegar hann var orðinn sáttur við sjónarhornið og afstöðuna, tók hann lokið af linsunni og lýsti myndina í 3 sek. þar sem birtan var orðin lítil. Ánægður með dagsverkið tók hann myndavélina á þrífætinum og setti hana á öxlina og gekk til baka.

Eitt hundrað árum seinna kom ég og tók þessa mynd á sama stað, og líka þessa hér að neðan frá aðeins öðru sjónarhorni. Myndavélin mín var aðeins léttari og handhægari, ég gat séð strax hvort myndin mín væri í lagi og að sjónarhornið væri eins og ég ætlaði mér, en ímyndaður ferðamaður frá 1910 þurfti kannski að bíða í nokkra daga eftir því að sjá afrakstur sinnar myndatöku.

H2O


Frá áramótum 2009-2010 hef ég tekið þátt í verkefni sem heitir „Mynd á viku“ í Fókusfélagi, sem er félag áhugaljósmyndara. Myndin hér að ofan er sú fyrsta í þessu verkefni og er tekin úti á miðju Elliðavatni strax eftir áramótin þegar Fókusfélagar skruppu í sitt árlega Jólarölt.