Stórgos í Eyjafjallajökli


Eyjafjallajökull blasir við frá Hvolsvelli.

Hafið er gos í Eyjafjallajökli sem er 10-20 sinnum stærra en gosið á Fimmvörðuhálsi, að sögn jarðfræðinga. Flóð er nú komið í Markarfljót sem stefnir í það að rjúfa varnargarða við Stóra-Dímon, en þar skammt frá er sumarhúsabyggð sem gæti verið í hættu ef hlaupið nær að brjótast í gegn um garðana. Gosið er nærri hábungu jökulsins að þessu sinni, og er gossprungan talin vera 1-2 km að lengd. Hún nær yfir vatnaskil milli norðurs og suðurs, og er vatn einnig byrjað að flæða niður í Svaðbælisá, austan við Þorvaldseyri. Vegagerðin hefur rofið þrjú skörð í þjóðveginn austan og vestan við Markarfljótsbrú til þess að létta á þrýstingnum á veginn, og þar spýtist nú flóðið í gegn af miklum krafti.

Íbúar og sumarhúsaeigendur á svæðinu rýmdu hús sín snemma í morgun og búið er að ganga úr skugga um að enginn sé á svæðinu sem ekki hefur til þess heimild. Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur, en ljóst er að tjón á vegum og mannvirkjum þeim tengdum er orðið nokkuð. Gamla brúin yfir Markarfljót er komin í kaf.

Eldgos

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi undir miðnætti sunnudaginn 21. mars, öllum að óvörum og án nokkurra sérstakra fyrirboða. Landsmenn hafa tekið þessu eldgosi fagnandi og fengið eitthvað annað að hugsa um en ……. og önnur efnahagsleg leiðindi. Fólk hefur streymt þúsundum saman á gosstöðvarnar upp á Fimmvörðuháls, á jeppum, snjósleðum eða fótgangandi, og þeir sem tíma að borga fyrir flugferð eða þyrluferð gera það. Við höfum aftur á móti látið okkur nægja að keyra inn í Fljótshlíðarafrétt þar sem útsýni er suður yfir Þórsmörk, austan Valahnjúks og eldstöðin blasir þar við ef skyggni er gott.

Í þessari ferð fengum við lánaðan jeppa sem kom okkur klakklaust á leiðarenda og til baka, þrátt fyrir lélega dempara að aftan, en vegurinn er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Umferðin í Fljótshlíðinni var eins og á góðum sumardegi um verslunarmannahelgi, flestir vel búnir en innanum voru nokkrir slyddujeppar.

Útsýnið frá þessum stað er stórfenglegt þó að um 5 km séu til gosstöðvanna. Og ef við snérum okkur í hina áttina blöstu við norðurljós yfir Einhyrningi og Tindfjöllum í norður.  Stjörnubjartur himinn, norðurljós og eldgos, er nokkuð hægt að hafa það betra? Þessar myndir voru teknar um kl. 23:00 laugardaginn 3. apríl.

Ég læt fylgja með eina mynd af Tindfjallasvæðinu sem er norður af Fljótshlíðinni, en þar voru mikil eldsumbrot á síðustu Ísöld. Sagt er að þar hafi verið hæsta fjall landsins á þeim tíma sem síðan ruddi úr sér svo mikilli kviku að toppurinn féll saman og niður í sigketil sem sjá má í miðjum austanverðum Tindfjallajökli. Á myndinni má sjá Tindfjöll og Þríhyrning og Fimmvörðuháls lengst til hægri. Í forgrunni er svo Ölfusá, en myndin er tekin af Þrengslaveginum.

Ein í viðbót frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.

Myndin er tekin með 100-400mm linsu og 2x extender = 800 mm.

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull, myndin er tekin frá kirkjunni á Breiðabólstað.

Ekki er víst hvenær eða hvort við sjáum Eyjafjallajökul aftur í þessari mynd eftir að gos hófst þar rétt fyrir miðnætti í kvöld, þann 20. mars. Allt virðist hafa gengið eðlilega fyrir sig með brottflutning fólks úr Fljótshlíðinni og frá Eyjafjöllum og fólk virðist rólegt og yfirvegað við þessar aðstæður, enda nýlega búið að yfirfara rýmingaráætlanir vegna mögulegrar goshættu.

Eyjafjallajökull, séður úr Fljótshlíð.

Allt bendir til þess að ekki verði jökulhlaup, þar sem gosið virðist koma upp á milli jöklanna, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls þar sem lítil snjóalög eru á þessu svæði á Fimmvörðuhálsi. Ég sem Mýrdælingur hrósa happi yfir því að þetta hafi ekki verið Kötlugos, því það er allt annað og meira sem þá verður á ferðinni.