Maí 2011 Dagatal

Síðast hélt ég því fram að apríl væri að koma með vorið, en nú er snjór yfir öllu eins og á haustdegi. Myndin sem fylgir maí dagatalinu er tekin austur undir Eyjafjöllum fyrir ári síðan, meðan gosið í Eyjafjallajökli stóð yfir. Bændur voru farnir að yrkja jörðina eins og ekkert væri sjálfsagðara með virka eldstöðina yfir sér í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel :)

Færeyjar

Ef þú ímyndar þér landslagið á Vestfjörðum eða Austfjörðum með grasi upp í topp á öllum fjöllum, sauðféð helmingi fleira en íbúarnir, fallegt og gestrisið fólk sem heldur fast í gamlar hefðir og venjur og örugglega fjórum sinnum fleiri jarðgöng heldur en á Íslandi. Það eru Færeyjar. Við Auður fórum í tveggja vikna heimsókn til Færeyja ásamt vinum okkar, Samson og Nínu, til þess að heimsækja félaga í Föroya urtagarðsfélaginu (Garðyrkjufélag Færeyja), en þeir komu í nokkurra daga heimsókn til íslands í fyrra sumar og voru þau Auður og Samson leiðsögumenn þeirra í tvo daga. Þess vegna var skipulögð heilmikil dagskrá fyrir okkur þar sem okkur voru sýndir margir helstu garðarnir í Færeyjum, og ég verð að segja að þeir komu mér á óvart fyrir fjölbreytileika og gróðurmenningu íbúanna. Á myndinni hér að ofan er bærinn Kvivik á Streymoy, og eyjarnar Koltur og Hestur blasa við fyrir miðju.

Vissulega voru mörg þorp líkt og þetta hér til vinstri, sem heitir Eiði, og er nyrst á Eysturoy, byggðin þétt og lítið undirlendi þar sem húsunum er tyllt upp í hlíðarnar, litríkum og fallegum húsum með karakter og sögu. Á slíkum sögum fer oft lítið fyrir öðrum gróðri en grasi og sauðkindin setur mark sitt á umhverfið.

Auðvelt er að ferðast um eyjarnar, því flatarmál þeirra er álíka mikið og Vestfjarðakjálkans, og lengsta vegalengd í kílómetrum milli tveggja staða á bíl nær hvergi þriggja stafa tölu. Allir vegir eru malbikaðir og fjöldi jarðganga í gegn um fjöll og undir firði gera ferðalög um eyjarnar skemmtilega upplifun.

Í hverjum einasta bæ finnur maður gjarnan falleg, gömul hús sem búið er að endurbyggja. Sem dæmi má nefna kirkjuna í Kirkjubæ, skammt frá Þórshöfn, en á myndinni hér til vinstri horfir Auður íhugul út um einn kirkjugluggann yfir á Reykstofuna, elsta timburhús á norðurlöndum sem hefur verið gert upp og er opið gestum. Skemmtilegt er að ganga um þessa litlu staði, svo sem Gjógv, Elduvík, Funning og Mikladal, en sá síðastnefndi er á Kalsoy, sem oft er nefnd Blokkflautan vegna þess að jarðgöng liggja eftir henni endilangri.

Einn af hápunktum ferðarinnar, en þeir voru nokkrir, var að upplifa Ólafsvöku og taka þátt í hátíðarhöldum í miðbæ Torshavn ásamt 10-15 þúsund Færeyingum og gestum þeirra. Þarna finnur maður hversu hefðirnar eru sterkar í Færeyjum þegar allir viðstaddir taka þátt í fjöldasöng um miðnættið þar sem hátt í tuttugu færeysk lög eru sungin, bæði gömul og ný. Að því loknu er stiginn dans og Ormurinn langi er dansaður og sunginn, öll 85 erindin þar til yfir lýkur. Við íslendingarnir tókum þátt í þessu af lífi og sál og fengum góða leiðsögn heimamanna sem margir hverjir skildu nokkuð vel íslenskuna, þó að við höfum stundum átt í nokkrum erfiðleikum með að skilja færeyskuna.

http://www.heimskringla.no/wiki/Ormurinn_langi

Myndband af Orminum langa: http://www.youtube.com/watch?v=Bts_v9mqv3g

Og Metal útgáfan frá hljómsveitinni Týr: http://www.youtube.com/watch?v=vtjksfgCp0I

Svanir

Álftir_IMG_8308_700

Fyrir skömmu var ég á ferðinni vestur á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi í þeim tilgangi að taka myndir af haustinu. Haustið var vissulega komið í fjöllin, þar sem þau voru grá og hvít niður í miðjar hlíðar og ferskur andblær í loftinu eins og svo oft á haustin þegar kólnar.

Álftir á mýrum_IMG_8285Það sem mér fannst þó eftirtektarverðast var allur sá fjöldi álfta sem ég sá í þessari ferð, og þá voru þær gjarnan í hópum eins og þessum hér að ofan, og gæddu sér á grasinu í túnum bænda í samkeppni við sauðkindina.

Oftast virtust þetta vera fjölskyldur, þar sem foreldrarnir voru í óðaönn að þjálfa afkvæmin í flugi, að undirbúa þau undir flugið yfir Atlantshafið.

Ég var heppinn að komast í þessa ferð í svona góðu veðri, því nokkrum dögum seinna var komin rigning og rok.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Rita

Rita

Þegar ég hafði klöngrast niður brattann stíginn frá útsýnispallinum við Hvítserk var ekki þverfótað fyrir útlendingum í rauðum eða bláum úlpum með allar stærðir myndavéla. Ég ákvað því að beina sjónum mínum að íbúum Hvítserks, en það reyndust vera nokkrar ritu-fjölskyldur, sem voru nú ekkert sérstaklega hrifnar af athyglinni sem ég veitti þeim. Þessi var búinn að láta mig heyra það í nokkurn tíma, að ég væri ekki velkominn og undirstrikaði það með því að fljúga gargandi af hreiðrinu og taka einn hring í kring um höfðann til þess eins að setjast aftur. Ég ákvað að láta gott heita og rölti því til baka framhjá lóninu milli Hvítserks og lands þar sem hann speglaðist í kvöldsólinni.