Frelsi

Regnbogi

„Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil…“ söng þessi mávur þar sem hann sveif í uppstreyminu yfir öskjuhlíðinni í fyrradag. Ómurinn heyrðist niður á svalirnar mínar þar sem ég kíkti útfyrir og fann um leið nokkra regndropa á andlitinu. Regnboginn sem myndaðist fyrir framan augun á mér náði með báða enda til jarðar og var mjög litfagur frá mér og myndavélinni minni séð. Mávurinn er örugglega frjálsari en ég og þú, hann þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE og annari slíkri óáran eins og íslenska þjóðin, hans hugsun snýst ábyggilega bara um næstu magafylli.

Dyrhólaey

Dyrhólaey

Skemmtilegt er að sitja við bjargbrúnina uppi á Reynisfjalli og horfa niður á Múkkann hnita hringa fyrir neðan og brimið berja á sandinum. Útsýnið er stórfenglegt, hvort sem veðrið er gott eða ekki, fjallasýnin er óviðjafnanleg allan hringinn, Pétursey og Eyjafjallajökull í vestur og í norður Mýrdalsjökull. Austanmegin er Hatta og Hrafnatindar og Hjörleifshöfði austur á Mýrdalssandi. Það er allt of sjaldan sem ég fer austur í Mýrdal, kannski einu sinni á ári, en þá er gaman að koma þarna upp og njóta náttúrunnar.