Dagatal desember 2011

Myndin á dagatali desembermánaðar er tekin á Þingvöllum á frostnótt í desember 2010, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Gullfoss

Gullfoss er alltaf jafn fallegur, hvort sem á sumar- eða vetrardegi og hvort sem árið er 1910 eða 2010. Auðvelt er að setja sig í spor ferðamanns veturinn 1910, sem lagði leið sína inn í Haukadal og upp með Hvítá, þar til komið var að Gullfossi. Hann hvíldi hestana og batt þá við bautasteininn á vestari bakka árinnar og gekk niður slakkann með stóra myndavél á öxlinni. Hann ætlaði að taka mynd af fossinum í klakaböndum til þess að sýna vinum sínum sem bjuggu á mölinni (Reykjavík), því þeir höfðu fæstir séð þennan foss að vetri. Það gekk á með éljum þennan dag og kalt var í veðri. Ferðamaðurinn stillti myndavélinni upp og beindi henni niður með ánni til suðurs, og þegar hann var orðinn sáttur við sjónarhornið og afstöðuna, tók hann lokið af linsunni og lýsti myndina í 3 sek. þar sem birtan var orðin lítil. Ánægður með dagsverkið tók hann myndavélina á þrífætinum og setti hana á öxlina og gekk til baka.

Eitt hundrað árum seinna kom ég og tók þessa mynd á sama stað, og líka þessa hér að neðan frá aðeins öðru sjónarhorni. Myndavélin mín var aðeins léttari og handhægari, ég gat séð strax hvort myndin mín væri í lagi og að sjónarhornið væri eins og ég ætlaði mér, en ímyndaður ferðamaður frá 1910 þurfti kannski að bíða í nokkra daga eftir því að sjá afrakstur sinnar myndatöku.

H2O


Frá áramótum 2009-2010 hef ég tekið þátt í verkefni sem heitir „Mynd á viku“ í Fókusfélagi, sem er félag áhugaljósmyndara. Myndin hér að ofan er sú fyrsta í þessu verkefni og er tekin úti á miðju Elliðavatni strax eftir áramótin þegar Fókusfélagar skruppu í sitt árlega Jólarölt.