Haust

Kría

Þessi mynd minnir mig svolítið á haustið, farfuglarnir eru farnir eða eru að búa sig undir langferðina og haustlægðirnar færast í aukana. Skógarþrestir og starar stunda flugæfingar yfir húsinu okkar og einstaka einmana mávur flýgur framhjá, eins og hann sé ekki alveg viss um hvort hann ætti að vera hérna yfirleitt. Þessi eina kría segir mér líka að það er undir hverjum og einum komið hvort hann kemst á leiðarenda, í hópnum hugsar hver um sig en allir stefna samt að sama marki, að komast til vetrarstöðvanna í Evrópu eða Afríku og krían þarf reyndar að leggja á sig ennþá lengra flug, til Suðurskautsins.

Þetta er svolítið eins og hjá mannfólkinu, hver einstaklingur þarf að hugsa um sinn hag, því það er ekki víst að hinir geri það fyrir mann.

Rita

Rita

Þegar ég hafði klöngrast niður brattann stíginn frá útsýnispallinum við Hvítserk var ekki þverfótað fyrir útlendingum í rauðum eða bláum úlpum með allar stærðir myndavéla. Ég ákvað því að beina sjónum mínum að íbúum Hvítserks, en það reyndust vera nokkrar ritu-fjölskyldur, sem voru nú ekkert sérstaklega hrifnar af athyglinni sem ég veitti þeim. Þessi var búinn að láta mig heyra það í nokkurn tíma, að ég væri ekki velkominn og undirstrikaði það með því að fljúga gargandi af hreiðrinu og taka einn hring í kring um höfðann til þess eins að setjast aftur. Ég ákvað að láta gott heita og rölti því til baka framhjá lóninu milli Hvítserks og lands þar sem hann speglaðist í kvöldsólinni.

Frelsi

Regnbogi

„Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil…“ söng þessi mávur þar sem hann sveif í uppstreyminu yfir öskjuhlíðinni í fyrradag. Ómurinn heyrðist niður á svalirnar mínar þar sem ég kíkti útfyrir og fann um leið nokkra regndropa á andlitinu. Regnboginn sem myndaðist fyrir framan augun á mér náði með báða enda til jarðar og var mjög litfagur frá mér og myndavélinni minni séð. Mávurinn er örugglega frjálsari en ég og þú, hann þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE og annari slíkri óáran eins og íslenska þjóðin, hans hugsun snýst ábyggilega bara um næstu magafylli.

Dyrhólaey

Dyrhólaey

Skemmtilegt er að sitja við bjargbrúnina uppi á Reynisfjalli og horfa niður á Múkkann hnita hringa fyrir neðan og brimið berja á sandinum. Útsýnið er stórfenglegt, hvort sem veðrið er gott eða ekki, fjallasýnin er óviðjafnanleg allan hringinn, Pétursey og Eyjafjallajökull í vestur og í norður Mýrdalsjökull. Austanmegin er Hatta og Hrafnatindar og Hjörleifshöfði austur á Mýrdalssandi. Það er allt of sjaldan sem ég fer austur í Mýrdal, kannski einu sinni á ári, en þá er gaman að koma þarna upp og njóta náttúrunnar.