Maí 2011 Dagatal

Síðast hélt ég því fram að apríl væri að koma með vorið, en nú er snjór yfir öllu eins og á haustdegi. Myndin sem fylgir maí dagatalinu er tekin austur undir Eyjafjöllum fyrir ári síðan, meðan gosið í Eyjafjallajökli stóð yfir. Bændur voru farnir að yrkja jörðina eins og ekkert væri sjálfsagðara með virka eldstöðina yfir sér í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel :)

Svanir

Álftir_IMG_8308_700

Fyrir skömmu var ég á ferðinni vestur á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi í þeim tilgangi að taka myndir af haustinu. Haustið var vissulega komið í fjöllin, þar sem þau voru grá og hvít niður í miðjar hlíðar og ferskur andblær í loftinu eins og svo oft á haustin þegar kólnar.

Álftir á mýrum_IMG_8285Það sem mér fannst þó eftirtektarverðast var allur sá fjöldi álfta sem ég sá í þessari ferð, og þá voru þær gjarnan í hópum eins og þessum hér að ofan, og gæddu sér á grasinu í túnum bænda í samkeppni við sauðkindina.

Oftast virtust þetta vera fjölskyldur, þar sem foreldrarnir voru í óðaönn að þjálfa afkvæmin í flugi, að undirbúa þau undir flugið yfir Atlantshafið.

Ég var heppinn að komast í þessa ferð í svona góðu veðri, því nokkrum dögum seinna var komin rigning og rok.

Stóð

Hestar í þoku

Mér finnst landslag verða mjög skemmtilegt í þoku, maður upplifir dulúð og smá ógn við hið óþekkta. Margt býr í þokunni og kannski er eitthvað til í draugasögunum sem maður hefur lesið og heyrt, eða að ímyndunarafl fólks hafi alltaf verið svona fjörugt og þessar sögur orðið til út af því. Allavega upplifði ég svolítið þannig ástand þegar ég var á ferð uppi á Höfðabrekkuheiði í Mýrdal í svarta þoku og stilltu veðri. Ég hef komið þangað oft áður og þekkti landslagið og vissi hverju ég átti von á, eða þannig. Þegar þokan er svona þétt er ekki mikið skyggni fram fyrir bílinn, en skyndilega koma hestar töltandi eftir veginum, og ekki bara 2-3 hestar, heldur 100-200 hestar sem streymdu út úr þokunni og framhjá bílnum mínum. Þetta hélt áfram í nokkrar mínútur og svo hurfu þeir hver á eftir öðrum út í þokuna fyrir aftan mig. Ég hélt áfram ferðinni á vit hins óþekkta.

Gleði

Sólhildur

Fátt er meira endurnærandi fyrir sálina en að vera úti í náttúrunni með ungum heimspekingi sem sér alltaf eitthvað nýtt og athyglisvert í hversdagslegum hlutum. Við spáðum mikið í fuglunum og hvar þeir ættu heima og lágum tímunum saman og horfðum á skýjin á „Töfrateppinu“ sem hún dröslaði með sér út um allt. Þegar maður er tæplega meter á hæð er maður miklu nær blómunum sem voru víða fyrir fótum okkar, hrafnaklukkur, geldingahnappar og sóleyjar. Hún kallar sóleyjarnar barnablóm og heldur sig algerlega við þau þegar henni langar til að tína sér blóm sem hún gefur svo afa eða ömmu með sér.

Kurl

KurlKurl er ein af best þekktu afurðum íslenskra skóga, og má segja að í þessu tilfelli gildi það sem sagt er „Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða…“ en þessi kurlfarmur mun verða undir fótum mínum næstu árin og áratugina í Merkurlautinni. Nokkrar blöðrur í lófunum er ánægjulegur fylgifiskur þess að moka 300 kg. af kurli upp úr stórsekk og ofan í hjólbörur, í sólskini og 18 stiga hita. Er hægt að hugsa sér eitthvað skemmtilegra? Nei, ég hélt ekki 🙂