Calendar September 2011 – Dagatal september 2011

September er mánuður uppskeru hjá þeim sem eru að rækta sér til yndis og ánægju. Náttúran nýtir þennan mánuð til þess að ganga frá fyrir vetrardvalann og sýnir okkur liti sína í leiðinni. Ræktun matjurta, kryddjurta, berjarunna og ávaxtatrjáa er nýja „hittið“ hjá okkur Íslendingum og þeir eru margir sem þessa dagana eru að uppskera kál og krydd. Ég á kartöflur í jörðu sem bíða eftir að verða teknar upp, ásamt hnúðkáli, hvítkáli, blómkáli, rófum og fleiri tegundum sem auka heilbrigði mína og ánægju yfir að borða eigin framleiðslu.

Myndin á dagatali septembermánaðar er af jarðarberi, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Apríl 2011 dagatal

Apríl er mánuðurinn sem kemur með vorið, Þessi mynd er bara til að minna ykkur á að sumarið nálgast með hverjum degi sem líður. Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil, 1440 x 900 px –  Stór, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel :)

Stóð

Hestar í þoku

Mér finnst landslag verða mjög skemmtilegt í þoku, maður upplifir dulúð og smá ógn við hið óþekkta. Margt býr í þokunni og kannski er eitthvað til í draugasögunum sem maður hefur lesið og heyrt, eða að ímyndunarafl fólks hafi alltaf verið svona fjörugt og þessar sögur orðið til út af því. Allavega upplifði ég svolítið þannig ástand þegar ég var á ferð uppi á Höfðabrekkuheiði í Mýrdal í svarta þoku og stilltu veðri. Ég hef komið þangað oft áður og þekkti landslagið og vissi hverju ég átti von á, eða þannig. Þegar þokan er svona þétt er ekki mikið skyggni fram fyrir bílinn, en skyndilega koma hestar töltandi eftir veginum, og ekki bara 2-3 hestar, heldur 100-200 hestar sem streymdu út úr þokunni og framhjá bílnum mínum. Þetta hélt áfram í nokkrar mínútur og svo hurfu þeir hver á eftir öðrum út í þokuna fyrir aftan mig. Ég hélt áfram ferðinni á vit hins óþekkta.

Gleði

Sólhildur

Fátt er meira endurnærandi fyrir sálina en að vera úti í náttúrunni með ungum heimspekingi sem sér alltaf eitthvað nýtt og athyglisvert í hversdagslegum hlutum. Við spáðum mikið í fuglunum og hvar þeir ættu heima og lágum tímunum saman og horfðum á skýjin á „Töfrateppinu“ sem hún dröslaði með sér út um allt. Þegar maður er tæplega meter á hæð er maður miklu nær blómunum sem voru víða fyrir fótum okkar, hrafnaklukkur, geldingahnappar og sóleyjar. Hún kallar sóleyjarnar barnablóm og heldur sig algerlega við þau þegar henni langar til að tína sér blóm sem hún gefur svo afa eða ömmu með sér.

Orange

Sunset

Orange er einn af heitu litunum og himininn skartar þessum lit helst á heitum sumarkvöldum eftir sólríkan dag með hlýjum sunnanvindum. Helsta ástæðan fyrir svona litadýrð er ekki bara sólin, heldur er þetta oft mengun sem kemur með þessum sömu hlýju vindum sunnan úr Evrópu og breytir himninum í þetta litahaf. Við finnum þetta þegar við erum útivið á svona dögum, sérstaklega úti í náttúrunni þar sem venjulega er ekki nein mengun, en ég er alveg tilbúinn til að fórna nokkrum dögum í evrópsku lofti hér á landi gegn því að hitastigið fari nú upp fyrir 20°C.

Auga stormsins

Auga stormsins

Það skiptast á skin og skúrir í veðrinu þessa dagana eins og í lífi þjóðarinnar. Eftir marga góða og hlýja sólardaga kemur rigning með kulda og roki og rekur mann inn í hús fyrr en ella hefði verið. Ég held að það sé búið að ofdekra okkur með allri þessari sól, og þetta sé bara til þess að rétta af viðmiðin svo að við njótum bara ennþá betur næsta sólardags.

Þetta er mynd af jörðinni okkar, allavega hluta af henni, tekin í um 2 metra hæð yfir Elliðaá í Reykjavík.