Calendar September 2011 – Dagatal september 2011

September er mánuður uppskeru hjá þeim sem eru að rækta sér til yndis og ánægju. Náttúran nýtir þennan mánuð til þess að ganga frá fyrir vetrardvalann og sýnir okkur liti sína í leiðinni. Ræktun matjurta, kryddjurta, berjarunna og ávaxtatrjáa er nýja „hittið“ hjá okkur Íslendingum og þeir eru margir sem þessa dagana eru að uppskera kál og krydd. Ég á kartöflur í jörðu sem bíða eftir að verða teknar upp, ásamt hnúðkáli, hvítkáli, blómkáli, rófum og fleiri tegundum sem auka heilbrigði mína og ánægju yfir að borða eigin framleiðslu.

Myndin á dagatali septembermánaðar er af jarðarberi, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Sápukúla

Soap_bubble_MG_0945

Ég dvaldi ásamt fjölskyldunni í yndislegum sumarbústað í Minni-Borgum um síðustu helgi þar sem við nutum lífsins í slökun og rólegheitum. Þessar fjölskylduhelgar í sumarbústað einhversstaðar úti á landi eru mikið tilhlökkunarefni þar sem börnin og barnabörnin eyða helginni með okkur.

Sumarbustadaferd_20Í fyrra voru bakaðar jólapiparkökurnar við mikinn fögnuð barnabarna, þar sem þau fengu að spreyta sig á bakstrinum með því að búa til kalla og kerlingar, hjörtu, endur og hvaðeina sem hægt er að búa til úr piparkökudeigi. Ása sá um að fletja út deigið svo þau gætu gert sín mynstur og komið þeim á bökunarplötuna með lítilsháttar hjálp og koma því í ofninn.

Núna þótti okkur of snemmt að baka piparkökur, en þess í stað var saumað í, búin til jólakort og blásnar sápukúlur.

_MG_0549Auður amma sat við útsaum, eins og ömmur eiga að gera 🙂 og þau litlu sáu að hún var að gera eitthvað skemmtilegt og komu niður af svefnloftinu til að kíkja á það. Þau settust svo niður hjá ömmu, sem lánaði þeim nál með tvinna og hjálpaði þeim að byrja á útsauminu. Það er ekki mörgum sögum af árangrinum, en einbeitingin og þögnin var alger í 15-20 mínútur meðan þau stungu nálinni niður úr javanum og upp aftur, þangað til garnið kláraðist. Amma kom þá til bjargar og þræddi nálarnar aftur.

Þegar saumaskapnum var lokið þótti fólki kominn tími til að hreyfa sig aðeins og fóru því allir í útifötin, leikdótið dregið fram, og tengdasonurinn sótti fótbolta út  í bíl. Við strákarnir lékum okkur í fótbolta um stund á meðan börnin breyttu göngustígnum við bústaðinn í kastala og hús.

_MG_0653Svo voru sápukúlustaukarnir dregnir fram í dagsljósið og þau litlu fengu að spreyta sig á því um stund, með misjöfnum árangri. Sumir 3 ára blésu of fast til þess að þetta gengi upp, en þegar maður er 4 ára, þá gengur það betur. Guðni stóri frændi er hér að sýna hvernig á að gera þetta með góðum árangri. Sápukúlurnar svifu um pallinn í logninu, sumar tylltu sér niður og sprungu, aðrar lifðu lengur svo hægt var að spegla sér í þeim þar sem þær lágu á blautum pallinum. Sumum fannst mest spennandi að stíga ofaná sápukúlurnar á pallinum og var mikið hlegið.

Að síðustu urðu þau litlu þreytt á þessu og snéru sér að öðrum leikjum, en þá héldu Guðni og Fjalar áfram og blésu sápukúlur sem mest þeir máttu, og ég tók myndir af þeim, sem hægt er að skoða hér: http://www.pbase.com/pall

Út úr þessu komu ótrúlegustu mynstur og spegilmyndir, stórar sápukúlur sem sumar öðluðust sjálfstætt líf og svifu út fyrir pallinn fyrir hægum andvaranum og sáust sumar þeirra a síðustu hverfa yfir golfvellinum í nágrenninu.

Svanir

Álftir_IMG_8308_700

Fyrir skömmu var ég á ferðinni vestur á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi í þeim tilgangi að taka myndir af haustinu. Haustið var vissulega komið í fjöllin, þar sem þau voru grá og hvít niður í miðjar hlíðar og ferskur andblær í loftinu eins og svo oft á haustin þegar kólnar.

Álftir á mýrum_IMG_8285Það sem mér fannst þó eftirtektarverðast var allur sá fjöldi álfta sem ég sá í þessari ferð, og þá voru þær gjarnan í hópum eins og þessum hér að ofan, og gæddu sér á grasinu í túnum bænda í samkeppni við sauðkindina.

Oftast virtust þetta vera fjölskyldur, þar sem foreldrarnir voru í óðaönn að þjálfa afkvæmin í flugi, að undirbúa þau undir flugið yfir Atlantshafið.

Ég var heppinn að komast í þessa ferð í svona góðu veðri, því nokkrum dögum seinna var komin rigning og rok.