Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Stóð

Hestar í þoku

Mér finnst landslag verða mjög skemmtilegt í þoku, maður upplifir dulúð og smá ógn við hið óþekkta. Margt býr í þokunni og kannski er eitthvað til í draugasögunum sem maður hefur lesið og heyrt, eða að ímyndunarafl fólks hafi alltaf verið svona fjörugt og þessar sögur orðið til út af því. Allavega upplifði ég svolítið þannig ástand þegar ég var á ferð uppi á Höfðabrekkuheiði í Mýrdal í svarta þoku og stilltu veðri. Ég hef komið þangað oft áður og þekkti landslagið og vissi hverju ég átti von á, eða þannig. Þegar þokan er svona þétt er ekki mikið skyggni fram fyrir bílinn, en skyndilega koma hestar töltandi eftir veginum, og ekki bara 2-3 hestar, heldur 100-200 hestar sem streymdu út úr þokunni og framhjá bílnum mínum. Þetta hélt áfram í nokkrar mínútur og svo hurfu þeir hver á eftir öðrum út í þokuna fyrir aftan mig. Ég hélt áfram ferðinni á vit hins óþekkta.