Eldgos

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi undir miðnætti sunnudaginn 21. mars, öllum að óvörum og án nokkurra sérstakra fyrirboða. Landsmenn hafa tekið þessu eldgosi fagnandi og fengið eitthvað annað að hugsa um en ……. og önnur efnahagsleg leiðindi. Fólk hefur streymt þúsundum saman á gosstöðvarnar upp á Fimmvörðuháls, á jeppum, snjósleðum eða fótgangandi, og þeir sem tíma að borga fyrir flugferð eða þyrluferð gera það. Við höfum aftur á móti látið okkur nægja að keyra inn í Fljótshlíðarafrétt þar sem útsýni er suður yfir Þórsmörk, austan Valahnjúks og eldstöðin blasir þar við ef skyggni er gott.

Í þessari ferð fengum við lánaðan jeppa sem kom okkur klakklaust á leiðarenda og til baka, þrátt fyrir lélega dempara að aftan, en vegurinn er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Umferðin í Fljótshlíðinni var eins og á góðum sumardegi um verslunarmannahelgi, flestir vel búnir en innanum voru nokkrir slyddujeppar.

Útsýnið frá þessum stað er stórfenglegt þó að um 5 km séu til gosstöðvanna. Og ef við snérum okkur í hina áttina blöstu við norðurljós yfir Einhyrningi og Tindfjöllum í norður.  Stjörnubjartur himinn, norðurljós og eldgos, er nokkuð hægt að hafa það betra? Þessar myndir voru teknar um kl. 23:00 laugardaginn 3. apríl.

Ég læt fylgja með eina mynd af Tindfjallasvæðinu sem er norður af Fljótshlíðinni, en þar voru mikil eldsumbrot á síðustu Ísöld. Sagt er að þar hafi verið hæsta fjall landsins á þeim tíma sem síðan ruddi úr sér svo mikilli kviku að toppurinn féll saman og niður í sigketil sem sjá má í miðjum austanverðum Tindfjallajökli. Á myndinni má sjá Tindfjöll og Þríhyrning og Fimmvörðuháls lengst til hægri. Í forgrunni er svo Ölfusá, en myndin er tekin af Þrengslaveginum.

Ein í viðbót frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.

Myndin er tekin með 100-400mm linsu og 2x extender = 800 mm.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.