Leikur að litum

Eitt af því sem ég hef heillast að varðandi ljósmyndun er hversu fjölbreytileg hún er. Flestir sem stunda þessa iðju vilja alltaf eignast betri og betri græjur og geta þar af leiðandi tekið betri myndir, væntanlega. En þegar maður er kominn með bestu græjurnar í hendurnar kemur þörf fyrir að gera öðruvísi hluti, öðruvísi myndir, nálgast viðfangsefnið á allt annan hátt. Eitt af því sem ég hef verið að prófa undanfarið er að taka óskýrar, bluraðar myndir, þar sem útkoman er oft svipuð því sem gerist í ódýrum, lélegum einnota myndavélum. Mér virðist sem þessi þörf hafi gripið marga aðra ljósmyndara, þörfin á að hverfa aftur til upprunans þegar tæknin er orðin svo fullkomin að erfitt er að greina framfarir í myndgæðum.

Ein aðferðin kallast „Freelensing“ á ensku. Með því að losa linsuna af myndavélinni og halda henni fyrir framan vélina og taka mynd þannig í gegn um linsuna fæst oft á tíðum óvænt niðurstaða Útkoman getur orðið skemmtileg og öðruvísi, skrýtnir litir, skuggar þar sem engir skuggar eru, ljósleki og draumkennd áhrif.

Skemmtileg tilraun til að gera eitthvað nýtt.

Meira hér: http://palljokull.zenfolio.com/p967334609

Frelsi

Regnbogi

„Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil…“ söng þessi mávur þar sem hann sveif í uppstreyminu yfir öskjuhlíðinni í fyrradag. Ómurinn heyrðist niður á svalirnar mínar þar sem ég kíkti útfyrir og fann um leið nokkra regndropa á andlitinu. Regnboginn sem myndaðist fyrir framan augun á mér náði með báða enda til jarðar og var mjög litfagur frá mér og myndavélinni minni séð. Mávurinn er örugglega frjálsari en ég og þú, hann þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE og annari slíkri óáran eins og íslenska þjóðin, hans hugsun snýst ábyggilega bara um næstu magafylli.