Calendar September 2011 – Dagatal september 2011

September er mánuður uppskeru hjá þeim sem eru að rækta sér til yndis og ánægju. Náttúran nýtir þennan mánuð til þess að ganga frá fyrir vetrardvalann og sýnir okkur liti sína í leiðinni. Ræktun matjurta, kryddjurta, berjarunna og ávaxtatrjáa er nýja „hittið“ hjá okkur Íslendingum og þeir eru margir sem þessa dagana eru að uppskera kál og krydd. Ég á kartöflur í jörðu sem bíða eftir að verða teknar upp, ásamt hnúðkáli, hvítkáli, blómkáli, rófum og fleiri tegundum sem auka heilbrigði mína og ánægju yfir að borða eigin framleiðslu.

Myndin á dagatali septembermánaðar er af jarðarberi, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Sólhildur í sveitinni

Við skruppum í sveitina til Önnu Birnu sýslumanns í Varmahlíð undir Eyjafjöllum til að kíkja á lömbin og kálfana. Sólhildur var ekkert hrædd við ungviðið og hafði mikið gaman af að fá að halda á lambinu. Það spriklaði svolítið í fanginu á henni og á meðan náði brosið alveg út að eyrum. Henni fannst lambið mjúkt og hlýtt og með flottar krullur í hárinu.

Kálfarnir voru líka spennandi, þó að þeir væru svolítið stærri og fyrirferðarmeiri, en Sólhildur komst fljótlega að því að þeir voru hræddari við hana en hún við þá. Eftir það var ekkert mál að strjúka þeim aðeins og leyfa þeim að þefa af hendinni. Þeir voru svolítið blautir á nefinu og pínulítið hissa á stelpunni í rauðu úlpunni en þetta endaði með góðum vinskap af beggja hálfu.

Fleiri myndir úr heimsókninni á www.pbase.com/pall

Brúðkaup

Asa_Fjalar_IMG_5025

Brúðkaup Ásu og Fjalars er einn af stærstu viðburðum í lífi mínu og fjölskyldunnar, einstaklega fallegt og skemmtilegt brúðkaup þessa glæsilega pars. Athöfnin fór fram í fallegum og látlausum garði fyrir framan gamla bæinn á Kirkjubæjarklaustri, en þaðan er Fjalar ættaður og uppalinn. Sýslumaðurinn í Vík, Anna Birna Þráinsdóttir gaf þau Ásu og Fjalar saman, og var eftÁsa og Fjalar_220809_IMG_5056ir því tekið hversu skörulega það var gert, einhver sagði að athöfnin hafi tekið 14 mínútur. Innan þess tíma rúmaðist fallegur söngur Katrínar Valdísar, fyrir og eftir athöfnina.

Ég gat ekki haldið aftur af tárunum á meðan á athöfninni stóð, slík var geðshræringin og gleðin sem ég upplifði, og mamma sagði við mig seinna að ef maður getur grátið á þessum aldri, þá sé maður orðin þroskaður og fullorðinn. Eftir athöfnina kvittaði ég svo í bók Sýslumannsins sem svaramaður og allt var þar fært til bókar eins og vera ber.

Að því loknu tók við veisla með frábærum mat á Hótelinu á Klaustri, þar sem lögð var áhersla á mat úr héraði ásamt skemmtilegum ræðum og óvæntum skemmtiatriðum og svo var sungið fram á rauða nótt…

Orange

Sunset

Orange er einn af heitu litunum og himininn skartar þessum lit helst á heitum sumarkvöldum eftir sólríkan dag með hlýjum sunnanvindum. Helsta ástæðan fyrir svona litadýrð er ekki bara sólin, heldur er þetta oft mengun sem kemur með þessum sömu hlýju vindum sunnan úr Evrópu og breytir himninum í þetta litahaf. Við finnum þetta þegar við erum útivið á svona dögum, sérstaklega úti í náttúrunni þar sem venjulega er ekki nein mengun, en ég er alveg tilbúinn til að fórna nokkrum dögum í evrópsku lofti hér á landi gegn því að hitastigið fari nú upp fyrir 20°C.