Calendar October 2011 – Dagatal október 2011.

Myndin á dagatali októbermánaðar er tekin í fjöru norður í Fljótum, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Calendar July 2011 – Júlí 2011 dagatal

Sumarið er víst loksins komið. Síðustu dagana í júní var það á Suðurlandi en svo virðist sem það hafi skroppið norður í byrjun júlí. Svona var skýjafarið á Suðurlandsvegi þriðja júlí og gekk á með skúrum. Bændur eru orðnir langeygir að bíða eftir rigningu en aðrir sem vilja fá að njóta sólar allt sumarið eru líka búnir að bíða lengi eftir smá yl, svona eins og tveggja stafa hitatölu í nokkra daga. Líkast til verður sumarið eins og svo oft áður, fólk hendist landshorna á milli til þess að ná sólarglætu og smá lit á kroppinn, allavega í skjóli fyrir vindinum, hann getur verið kaldur þó að júlí sé kominn.

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel :)

Færeyjar

Ef þú ímyndar þér landslagið á Vestfjörðum eða Austfjörðum með grasi upp í topp á öllum fjöllum, sauðféð helmingi fleira en íbúarnir, fallegt og gestrisið fólk sem heldur fast í gamlar hefðir og venjur og örugglega fjórum sinnum fleiri jarðgöng heldur en á Íslandi. Það eru Færeyjar. Við Auður fórum í tveggja vikna heimsókn til Færeyja ásamt vinum okkar, Samson og Nínu, til þess að heimsækja félaga í Föroya urtagarðsfélaginu (Garðyrkjufélag Færeyja), en þeir komu í nokkurra daga heimsókn til íslands í fyrra sumar og voru þau Auður og Samson leiðsögumenn þeirra í tvo daga. Þess vegna var skipulögð heilmikil dagskrá fyrir okkur þar sem okkur voru sýndir margir helstu garðarnir í Færeyjum, og ég verð að segja að þeir komu mér á óvart fyrir fjölbreytileika og gróðurmenningu íbúanna. Á myndinni hér að ofan er bærinn Kvivik á Streymoy, og eyjarnar Koltur og Hestur blasa við fyrir miðju.

Vissulega voru mörg þorp líkt og þetta hér til vinstri, sem heitir Eiði, og er nyrst á Eysturoy, byggðin þétt og lítið undirlendi þar sem húsunum er tyllt upp í hlíðarnar, litríkum og fallegum húsum með karakter og sögu. Á slíkum sögum fer oft lítið fyrir öðrum gróðri en grasi og sauðkindin setur mark sitt á umhverfið.

Auðvelt er að ferðast um eyjarnar, því flatarmál þeirra er álíka mikið og Vestfjarðakjálkans, og lengsta vegalengd í kílómetrum milli tveggja staða á bíl nær hvergi þriggja stafa tölu. Allir vegir eru malbikaðir og fjöldi jarðganga í gegn um fjöll og undir firði gera ferðalög um eyjarnar skemmtilega upplifun.

Í hverjum einasta bæ finnur maður gjarnan falleg, gömul hús sem búið er að endurbyggja. Sem dæmi má nefna kirkjuna í Kirkjubæ, skammt frá Þórshöfn, en á myndinni hér til vinstri horfir Auður íhugul út um einn kirkjugluggann yfir á Reykstofuna, elsta timburhús á norðurlöndum sem hefur verið gert upp og er opið gestum. Skemmtilegt er að ganga um þessa litlu staði, svo sem Gjógv, Elduvík, Funning og Mikladal, en sá síðastnefndi er á Kalsoy, sem oft er nefnd Blokkflautan vegna þess að jarðgöng liggja eftir henni endilangri.

Einn af hápunktum ferðarinnar, en þeir voru nokkrir, var að upplifa Ólafsvöku og taka þátt í hátíðarhöldum í miðbæ Torshavn ásamt 10-15 þúsund Færeyingum og gestum þeirra. Þarna finnur maður hversu hefðirnar eru sterkar í Færeyjum þegar allir viðstaddir taka þátt í fjöldasöng um miðnættið þar sem hátt í tuttugu færeysk lög eru sungin, bæði gömul og ný. Að því loknu er stiginn dans og Ormurinn langi er dansaður og sunginn, öll 85 erindin þar til yfir lýkur. Við íslendingarnir tókum þátt í þessu af lífi og sál og fengum góða leiðsögn heimamanna sem margir hverjir skildu nokkuð vel íslenskuna, þó að við höfum stundum átt í nokkrum erfiðleikum með að skilja færeyskuna.

http://www.heimskringla.no/wiki/Ormurinn_langi

Myndband af Orminum langa: http://www.youtube.com/watch?v=Bts_v9mqv3g

Og Metal útgáfan frá hljómsveitinni Týr: http://www.youtube.com/watch?v=vtjksfgCp0I

Þingvellir í Fókus

Í kvöld, föstudaginn 11. júní opnaði í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík ljósmyndasýningin Þingvellir í Fókus. Sýnendur, sem eru 28 talsins með 51 mynd, eru allir félagar í Fókus, félagi áhugaljósmyndara. Þetta er nítjánda samsýning félagsins, en að jafnaði eru haldnar tvær sýningar á ári. Myndirnar eru flestar í stærðinni 40×60 sm og allar prentaðar á striga sem er festur á blindramma. Þetta gerir myndirnar mjög eigulegar, enda eru þær til sölu fyrir sanngjarnt verð, þær stærri kr. 30.000 og þær minni kr. 25.000.-

Ég á þessar tvær myndir hér að neðan á sýningunni:

Sýningin er opin dagana 11.-27. júní á opnunartíma Ráðhússins, virka daga kl. 08-19 og um helgar kl. 10-18.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Brúðkaup

Asa_Fjalar_IMG_5025

Brúðkaup Ásu og Fjalars er einn af stærstu viðburðum í lífi mínu og fjölskyldunnar, einstaklega fallegt og skemmtilegt brúðkaup þessa glæsilega pars. Athöfnin fór fram í fallegum og látlausum garði fyrir framan gamla bæinn á Kirkjubæjarklaustri, en þaðan er Fjalar ættaður og uppalinn. Sýslumaðurinn í Vík, Anna Birna Þráinsdóttir gaf þau Ásu og Fjalar saman, og var eftÁsa og Fjalar_220809_IMG_5056ir því tekið hversu skörulega það var gert, einhver sagði að athöfnin hafi tekið 14 mínútur. Innan þess tíma rúmaðist fallegur söngur Katrínar Valdísar, fyrir og eftir athöfnina.

Ég gat ekki haldið aftur af tárunum á meðan á athöfninni stóð, slík var geðshræringin og gleðin sem ég upplifði, og mamma sagði við mig seinna að ef maður getur grátið á þessum aldri, þá sé maður orðin þroskaður og fullorðinn. Eftir athöfnina kvittaði ég svo í bók Sýslumannsins sem svaramaður og allt var þar fært til bókar eins og vera ber.

Að því loknu tók við veisla með frábærum mat á Hótelinu á Klaustri, þar sem lögð var áhersla á mat úr héraði ásamt skemmtilegum ræðum og óvæntum skemmtiatriðum og svo var sungið fram á rauða nótt…

Stolt

Gay-Pride_IMG_3884

Hinsegin dögum fylgir gleði og hamingja sem lýsir úr andlitum þátttakenda og þeirra sem fylgjast með hátíðarhöldum í Reykjavík. Hámarkinu er náð með skrúðgöngu niður Laugaveginn með þátttöku tugþúsunda gesta og skemmtun við Arnarhól í blíðviðri þennan laugardag. Litadýrð einkennir þennan dag, margir skreyta sig með litríku hálsskrauti og veifa fána samkynhneigðra og í lok skemmtunarinnar við Arnarhól var sleppt mörghundruð blöðrum í þessum sömu litum. Svifu þær upp og í norðvestur undan hægri golu og tóku stefnuna á Akranes og ég rölti heim á leið, stoltur yfir réttsýni og samkennd íslendinga með málstað samkynhneigðra.