Færeyjar

Ef þú ímyndar þér landslagið á Vestfjörðum eða Austfjörðum með grasi upp í topp á öllum fjöllum, sauðféð helmingi fleira en íbúarnir, fallegt og gestrisið fólk sem heldur fast í gamlar hefðir og venjur og örugglega fjórum sinnum fleiri jarðgöng heldur en á Íslandi. Það eru Færeyjar. Við Auður fórum í tveggja vikna heimsókn til Færeyja ásamt vinum okkar, Samson og Nínu, til þess að heimsækja félaga í Föroya urtagarðsfélaginu (Garðyrkjufélag Færeyja), en þeir komu í nokkurra daga heimsókn til íslands í fyrra sumar og voru þau Auður og Samson leiðsögumenn þeirra í tvo daga. Þess vegna var skipulögð heilmikil dagskrá fyrir okkur þar sem okkur voru sýndir margir helstu garðarnir í Færeyjum, og ég verð að segja að þeir komu mér á óvart fyrir fjölbreytileika og gróðurmenningu íbúanna. Á myndinni hér að ofan er bærinn Kvivik á Streymoy, og eyjarnar Koltur og Hestur blasa við fyrir miðju.

Vissulega voru mörg þorp líkt og þetta hér til vinstri, sem heitir Eiði, og er nyrst á Eysturoy, byggðin þétt og lítið undirlendi þar sem húsunum er tyllt upp í hlíðarnar, litríkum og fallegum húsum með karakter og sögu. Á slíkum sögum fer oft lítið fyrir öðrum gróðri en grasi og sauðkindin setur mark sitt á umhverfið.

Auðvelt er að ferðast um eyjarnar, því flatarmál þeirra er álíka mikið og Vestfjarðakjálkans, og lengsta vegalengd í kílómetrum milli tveggja staða á bíl nær hvergi þriggja stafa tölu. Allir vegir eru malbikaðir og fjöldi jarðganga í gegn um fjöll og undir firði gera ferðalög um eyjarnar skemmtilega upplifun.

Í hverjum einasta bæ finnur maður gjarnan falleg, gömul hús sem búið er að endurbyggja. Sem dæmi má nefna kirkjuna í Kirkjubæ, skammt frá Þórshöfn, en á myndinni hér til vinstri horfir Auður íhugul út um einn kirkjugluggann yfir á Reykstofuna, elsta timburhús á norðurlöndum sem hefur verið gert upp og er opið gestum. Skemmtilegt er að ganga um þessa litlu staði, svo sem Gjógv, Elduvík, Funning og Mikladal, en sá síðastnefndi er á Kalsoy, sem oft er nefnd Blokkflautan vegna þess að jarðgöng liggja eftir henni endilangri.

Einn af hápunktum ferðarinnar, en þeir voru nokkrir, var að upplifa Ólafsvöku og taka þátt í hátíðarhöldum í miðbæ Torshavn ásamt 10-15 þúsund Færeyingum og gestum þeirra. Þarna finnur maður hversu hefðirnar eru sterkar í Færeyjum þegar allir viðstaddir taka þátt í fjöldasöng um miðnættið þar sem hátt í tuttugu færeysk lög eru sungin, bæði gömul og ný. Að því loknu er stiginn dans og Ormurinn langi er dansaður og sunginn, öll 85 erindin þar til yfir lýkur. Við íslendingarnir tókum þátt í þessu af lífi og sál og fengum góða leiðsögn heimamanna sem margir hverjir skildu nokkuð vel íslenskuna, þó að við höfum stundum átt í nokkrum erfiðleikum með að skilja færeyskuna.

http://www.heimskringla.no/wiki/Ormurinn_langi

Myndband af Orminum langa: http://www.youtube.com/watch?v=Bts_v9mqv3g

Og Metal útgáfan frá hljómsveitinni Týr: http://www.youtube.com/watch?v=vtjksfgCp0I

Gleði

Sólhildur

Fátt er meira endurnærandi fyrir sálina en að vera úti í náttúrunni með ungum heimspekingi sem sér alltaf eitthvað nýtt og athyglisvert í hversdagslegum hlutum. Við spáðum mikið í fuglunum og hvar þeir ættu heima og lágum tímunum saman og horfðum á skýjin á „Töfrateppinu“ sem hún dröslaði með sér út um allt. Þegar maður er tæplega meter á hæð er maður miklu nær blómunum sem voru víða fyrir fótum okkar, hrafnaklukkur, geldingahnappar og sóleyjar. Hún kallar sóleyjarnar barnablóm og heldur sig algerlega við þau þegar henni langar til að tína sér blóm sem hún gefur svo afa eða ömmu með sér.