Calendar October 2011 – Dagatal október 2011.

Myndin á dagatali októbermánaðar er tekin í fjöru norður í Fljótum, og þér er frjálst að nýta dagatalið á skjáborðið þitt. Smelltu á viðeigandi hlekk hér að neðan og Bingó!

Hér getur þú sótt þessa mynd með dagatali til að nota á skjáborðið þitt.

Lítil/Small, 1440 x 900 px –  Stór/Large, 1920 x 1200 px

Farið inn á þessa tengla, hægri-smellið á myndina og veljið „Use Image as desktop photo“

Njótið vel

Stepping Stones for the Trolls

Stepping Stones for the Trolls, originally uploaded by Jokull.

Á Kjalarnesinu er smá útskot við Vesturlandsveginn þar sem hægt er að leggja bílnum og labba niður í fjöruna. Út frá fjörunni eru nokkrir klettar út í sjóinn sem standa mismunandi mikið upp úr sjónum á flóði og fjöru. Þetta svæði finnst mér alltaf skemmtilegt á að horfa og ljósmynda.
Með smá ímyndunarafli má vel hugsa sér að þessir steinar séu stiklur fyrir tröll úr Esjunni sem þurfa að stytta sér leið út á Gróttu.

H2O ljósmyndabók

Vatn í sínum mörgu myndum hefur daglega áhrif á þig og er grundvölllur alls lífs á jörðinni. Í tengslum við ljósmyndasýningu mína H2O hef ég gefið út ljósmyndabók með þemanu H2O, vatn í sínum ýmsu myndum. Bókin er 80 síður í hörðum spjöldum og samanstendur af myndum sem ég hef tekið síðustu fimm ár.

Kíkið endilega á sýnishorn af bókinni hér á blurb, og þar er líka hægt að panta eintak.
http://www.blurb.com/my/book/detail/2023300

Water in it’s many forms affects you everyday and is the basis of life on our planet.
I have published a Photobook on http://www.blurb.com with the H2O theme, water in it’s many forms. The book is 80 pages, hard cover and you can preview the first 15 pages here on blurb. http://www.blurb.com/my/book/detail/2023300

H2O

 

Vatn í sínum mörgu myndum hefur áhrif á þig

og er grundvöllur alls lífs á jörðinni.

Páll Jökull Pétursson hefur stundað ljósmyndun í meira en tuttugu ár, bæði sem áhugamál og vinnu sem útgefandi tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn. Á þessari sýningu tekur hann fyrir þemað H2O, vatn í sínum ýmsu formum, fljótandi, fast og loftkennt, og hvernig það kemur honum fyrir sjónir. Þetta er þriðja einkasýning Páls, en hann hefur auk þess tekið þátt í tuttugu sýningum með öðrum ljósmyndurum og áhugaljósmyndurum.

Páll Jökull er rúmlega fimmtugur að aldri, Sunnlendingur, ættaður úr Mýrdalnum og Holtum í Rangárvallasýslu. Undanfarin ár hefur hann myndað landslag, gróður og fólk, bæði innanlands og utan, og hefur þannig safnað efni í þessa sýningu, ásamt bók sem hann hyggst gefa út á netinu.

Sýningin er opin virka daga kl. 10 til 16 og um helgar kl. 13 til 16 í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi, Gerðubergi 3-5, 111 Reykjavík.

Verkin eru til sölu og er áhugasömum bent á að hafa samband við Pál Jökul í síma 824 0059 eða á netfangið palljokull@gmail.com.

Nánari upplýsingar um staðsetningu er að finna hér: Viðburðadagatal Gerðubergs.

Gullfoss

Gullfoss er alltaf jafn fallegur, hvort sem á sumar- eða vetrardegi og hvort sem árið er 1910 eða 2010. Auðvelt er að setja sig í spor ferðamanns veturinn 1910, sem lagði leið sína inn í Haukadal og upp með Hvítá, þar til komið var að Gullfossi. Hann hvíldi hestana og batt þá við bautasteininn á vestari bakka árinnar og gekk niður slakkann með stóra myndavél á öxlinni. Hann ætlaði að taka mynd af fossinum í klakaböndum til þess að sýna vinum sínum sem bjuggu á mölinni (Reykjavík), því þeir höfðu fæstir séð þennan foss að vetri. Það gekk á með éljum þennan dag og kalt var í veðri. Ferðamaðurinn stillti myndavélinni upp og beindi henni niður með ánni til suðurs, og þegar hann var orðinn sáttur við sjónarhornið og afstöðuna, tók hann lokið af linsunni og lýsti myndina í 3 sek. þar sem birtan var orðin lítil. Ánægður með dagsverkið tók hann myndavélina á þrífætinum og setti hana á öxlina og gekk til baka.

Eitt hundrað árum seinna kom ég og tók þessa mynd á sama stað, og líka þessa hér að neðan frá aðeins öðru sjónarhorni. Myndavélin mín var aðeins léttari og handhægari, ég gat séð strax hvort myndin mín væri í lagi og að sjónarhornið væri eins og ég ætlaði mér, en ímyndaður ferðamaður frá 1910 þurfti kannski að bíða í nokkra daga eftir því að sjá afrakstur sinnar myndatöku.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Auga stormsins

Auga stormsins

Það skiptast á skin og skúrir í veðrinu þessa dagana eins og í lífi þjóðarinnar. Eftir marga góða og hlýja sólardaga kemur rigning með kulda og roki og rekur mann inn í hús fyrr en ella hefði verið. Ég held að það sé búið að ofdekra okkur með allri þessari sól, og þetta sé bara til þess að rétta af viðmiðin svo að við njótum bara ennþá betur næsta sólardags.

Þetta er mynd af jörðinni okkar, allavega hluta af henni, tekin í um 2 metra hæð yfir Elliðaá í Reykjavík.