Haust

Kría

Þessi mynd minnir mig svolítið á haustið, farfuglarnir eru farnir eða eru að búa sig undir langferðina og haustlægðirnar færast í aukana. Skógarþrestir og starar stunda flugæfingar yfir húsinu okkar og einstaka einmana mávur flýgur framhjá, eins og hann sé ekki alveg viss um hvort hann ætti að vera hérna yfirleitt. Þessi eina kría segir mér líka að það er undir hverjum og einum komið hvort hann kemst á leiðarenda, í hópnum hugsar hver um sig en allir stefna samt að sama marki, að komast til vetrarstöðvanna í Evrópu eða Afríku og krían þarf reyndar að leggja á sig ennþá lengra flug, til Suðurskautsins.

Þetta er svolítið eins og hjá mannfólkinu, hver einstaklingur þarf að hugsa um sinn hag, því það er ekki víst að hinir geri það fyrir mann.

Landmannalaugar

Landmannalaugar

Ég fór í smá ferð inn í Landmannalaugar í byrjun ágúst með fjölskyldunni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Landmannalaugar að sumri til. Laugarnar eru milli hárra fjalla undir brún Laugahrauns á miðju Suður-hálendinu, norð-austur af Heklu. Við fórum þangað á þremur bílum, tveim jeppum og okkar Subaru. Leiðin liggur um hrjóstrugt svæði þegar komið er fram hjá Galtalæk, og sandur og vikur verða ráðandi í landslaginu, ásamt hraunbreiðum og fjöllum. Við gistum í skála við Landmannahelli og fórum í skoðunarferð þaðan og inn í Landmannalaugar, sem eru skammt frá.

Tjaldsvæðið í LandmannalaugumÞegar þangað var komið var farið að hvessa allmikið og sáum við að tjöldin á tjaldsvæðinu voru farin að leggjast undan vindinum, auk þess sem gekk á með skúrum. Mannskapurinn var settur í vind- og regngalla og svo var rölt af stað frá bílastæðinu til að kikja á laugina sjálfa. Leiðin frá skálanum að lauginni liggur í gegn um mýri en búið er að leggja göngubraut úr timbri alveg að litlum útsýnispalli sem þar er.

Synt í LandmannalaugumÁ leiðinni mættum við fjölda erlendra ferðamanna, margir þeirra voru jafnvel bara á sundskýlunni eða með handklæði utanum sig á leiðinni til baka eftir baðið. Okkur fannst nú alveg nóg um að ganga þessa leið í roki og rigningu þó að við værum full klædd.

Svæðið í kring um Laugalækinn er vel gróið en mjög blautt og þess vegna er tréstígurinn nauðsynlegur til þess að komast þangað. Við snérum fljótlega til baka aftur undan rigningunni heim í kofann við Landmannahelli og þar sem veðrið fór versnandi komumst við að því um kvöldið að björgunarsveitir hafi verið kallaðar úr til að bjarga töluverðum fjölda ferðamanna í skjól þar sem tjöldin voru farin að fjúka.

Dyrhólaey

Dyrhólaey

Skemmtilegt er að sitja við bjargbrúnina uppi á Reynisfjalli og horfa niður á Múkkann hnita hringa fyrir neðan og brimið berja á sandinum. Útsýnið er stórfenglegt, hvort sem veðrið er gott eða ekki, fjallasýnin er óviðjafnanleg allan hringinn, Pétursey og Eyjafjallajökull í vestur og í norður Mýrdalsjökull. Austanmegin er Hatta og Hrafnatindar og Hjörleifshöfði austur á Mýrdalssandi. Það er allt of sjaldan sem ég fer austur í Mýrdal, kannski einu sinni á ári, en þá er gaman að koma þarna upp og njóta náttúrunnar.